EPIC Environmental physiotherapy in the clinic
Hvað þarf til að gera vinnustaði sjúkraþjálfara umhverfisvænni?
Á þessari vefsíðu eru bakgrunnsupplýsingar og ítarefni fyrir alla þá þætti sem nefndir eru á veggspjaldinu: Hvað þarf til að gera vinnustaði sjúkraþjálfara umhverfisvænni? Fyrir hvern þátt má finna:
(1) Dæmi um aðgerðir sem hægt er að grípa til til að gera vinnustaði sjúkraþjálfara umhverfisvænni. Mikilvægt er að hafa í huga að dæmin eru hugsuð til leiðsagnar og þurfa sjúkraþjálfarar að tileinka sér það sem hentar á hverjum og einum vinnustað. Umhverfi sjúkraþjálfara er mismunandi og mælum við að metið sé hvaða aðgerðir eru árangursríkastar fyrir hvern og einn vinnustað.
(2) Rökstuðning fyrir því hvers vegna og hvernig sjúkraþjálfarar geta dregið úr áhrifum vinnustaða sinna á umhverfið.
(3) Fræðigreinar og gögn frá höfundum sem byggja upplýsingar og niðurstöður á vísindalegum gögnum og hafa sýnt fram á að geti unnið sjálfstætt að virtum heimildum án aðildar fyrirtækja eða hagsmunasamtökum þeirra. Að auki voru upplýsingar staðfærðar fyrir Ísland af bestu getu og settir inn tenglar fyrir íslenskar aðstæður.
Veggspjaldið Hvað þarf til að gera vinnustaði sjúkraþjálfara umhverfisvænni? og stuðningsefnið á þessari síðu voru unnin í samvinnu Physiotherapists for Planetary Health og Environmental Physiotherapy Association. Þórey Ólafsdóttir BS-nemi í sjúkraþjálfunarfræðum vann að þýðingu á vegspjaldinu ásamt stuðningsefni undir leiðsögn Steinunnar A. Ólafsdóttir lektors (sao@hi.is) við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands.
Dæmin og skýringarnar sem tekin hafa verið saman eiga að útskýra hvernig sjúkraþjálfarar geta innleitt markvissar aðgerðir á vinnustöðum (og heimavið) til að minnka neikvæð umhverfisáhrif og aukið sjálfbærni á vinnustöðum sjúkraþjálfara. Ábyrgðin er okkar allra og sjúkraþjálfarar eru þar ekki undanskildir. Við þurfum öll að taka þátt í umræðum og aðgerðum eins og fram kemur í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Samtök heilbrigðisstétta víða um heim hafa í auknum mæli bent á tengsl umhverfis og heilsu og mikilvægi þess að huga að vistkerfi jarðar samhliða heilsu mannkyns og var nýlega stofnað á Íslandi Félag lækna gegn umhverfisvá.
1. Meta kolefnislosun og hvernig hægt sé að draga úr henni
Ef ætlunin er að minnka vistspor vinnustaðarins er æskilegt að byrja á því að greina hversu stórt vistsporið er. Að því loknu er hægt að skoða hvar hægt sé að gera betur og nýta meðfylgjandi tillögur að aðgerðum (2-8). Megináherslan er á að minnka kolefnislosun vinnustaðarins sem og losun annarra lofttegunda sem eru hættulegar umhverfinu.
Aðgerðir
Hægt er að nýta eftirfarandi vefsíður til að reikna kolefnislosun frá einstaklingum og vinnustöðum.
- Kolviður
- Kolefnisreiknir samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur og ráðgjafar- og verkfræðistofunnar EFLU
- Ecological Footprint calculator
- Global Green and Healthy Hospitals í umsjón Health Care Without Harm
Rökstuðningur
Með því að greina stöðu kolefnislosunar er kominn grundvöllur til að skipuleggja aðgerðir á markvissan hátt. Vinnustaðurinn getur sett sér markmið og fylgst með hvernig gengur að ná þeim en óraunhæft er að gera ráð fyrir að kolefnislosun sé engin. Vinnustaðir geta bætt upp fyrir losun með viðeigandi ráðstofunum t.d. að planta niður trjám (50 tré fyrir 1 tonn af kolefni) eða kaupa losunarkvóta.
Heimildir og ítarefni
Climate and Health Alliance (2021). Real, Urgent & Now: Insights from health professionals on climate and health in Australia.
Skipulagsstofnun (2020). Skýrsla um mat á kolefnisspori á skipulagsstigi
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið (2022). Stöðuskýrsla aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum 2022
2. Spara orkuauðlindir svo sem rafmagn og hita
Orkusparnaður skilar sér bæði í minni kostnaði og aukinni umhverfisábyrgð. Aðferðir til að spara orku geta verið smávægilegar breytingar (einstaklingsbundnar) eða stórar kerfislægar breytingar. Með því að betrumbæta þau kerfi sem eru þegar í notkun má hámarka nýtingu auðlinda og draga úr sóun. Landsvirkjun stendur fyrir Grænvarpinu, hlaðvarpi sem fjallar um sjálfbæra þróun og bætta nýtingu auðlinda, hvort sem um er að ræða vinnslu endurnýjanlegrar orku eða aðra þætti hringrásarhagkerfisins.
Aðgerðir
Rafmagn:
- Nýta dagsbirtuna í staðinn fyrir rafmagnsljós þegar það er mögulegt
- Slökkva á rafmagnstækjum (t.d. tölvum og prenturum) í staðinn fyrir að hafa þau á í „standby“ stöðu
- Nota innstungur sem hægt er að slökkva á í lok vinnudags/á kvöldin
- Nota raftæki sem nota litla orku eða eru orkusparandi
- Slökkva á göngubrettum, hjólum o.fl. þegar þau eru ekki í notkun
- Íhuga hvort ástæða sé til að vinnustaðurinn framleiði eigið rafmagn til dæmis með sólarrafhlöðum á þakinu
Vatn:
- Vera meðvituð um vatnsnotkun og þá sérstaklega notkun á heitu vatni
Hiti:
- Setja upp hitastillli á ofna til að stýra hita
- Hafa lægra hitastig inn í herbergjum sem eru ekki í notkun
Velja einangrun frá sjálfbærum auðlindum við endurbætur á byggingum og einangrun nýbygginga
Rökstuðningur
Rafmagn: Svo til allt rafmagn á Íslandi er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum (Samorka, e.d.). Þó svo að við búum vel er mikilvægt að huga að því hvernig við notum rafmagnið til að lækka kostnað og nýta orkuna sem best og stuðla þannig að ábyrgri nýtingu auðlindanna.
Þó að LED ljósaperur séu dýrar þá endast þær allt að 25 sinnum lengur en hefðbundnar ljósaperur og nota mun minni orku. Upplýsingar um orkunotkun raftækja má sjá t.d. á orkumerkjum Evrópusambandsins. Sem dæmi má nefna ísskápur sem merktur er sem klassi A+++ notar um 100 kWh minni orku á ári miðað við ísskáp sem merktur er sem klassi A+, það gerir um 40 kg minni kolefnislosun á ári. Á vefsíðu Orkuseturs er hægt að reikna út raforkuverð hjá raforkusölum á Íslandi.
Hitaveita: Á Íslandi erum við flest svo lánsöm að hafa aðgang að heitu vatni til húshitunar og almennrar notkunar með litlu kolefnisspori. Þrátt fyrir það er samt mikilvægt að nýta heita vatnið vel, sérstaklega þegar kalt er úti. Á vefsíðu Veitna er að finna ýmis hollráð um heitt vatn þar sem m.a. er bent á einfaldar leiðir til að hámarka nýtingu og minnka þannig kostnað. Orkusparandi sturtuhausar geta dregið úr vatnsnotkun um allt að 50%. Einnig er gagnlegt að setja stýringar á sturtur og blöndunartæki, t.d. á salernum eða í búningsklefum, til að draga úr óþarfa rennsli.
Heimildir og ítarefni
Arcadia (2020). LED vs. regular lightbulbs: Do they really make a difference? https://www.arcadia.com/blog/led-vs-regular-lightbulbs-do-they-really-make-a-difference
Samorka (e.d.)
Waterwise (e.d.) How to Save Water https://waterwise.org.uk/how-to-save-water/
3. Draga úr neyslu, endurnýta og flokka
Allt sem fer óflokkað í ruslatunnuna endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni (Umhverfisstofnun, e.d) og því meira sem keypt er inn því meiri verður úrgangurinn. Úrgangur er ýmist brenndur eða brotnar niður á löngum tíma á urðunarstöðum og við það losna efni af ýmsum toga eða þá brotna nær ekkert niður og safnast þá upp í miklu magni. Flokkun og endurvinnsla er því lykilatriði í að minnka mengun, ásamt því að draga úr neyslu. Æskilegt er að vinnustaðir átti sig á hvers konar úrgangur er á staðnum og sjá til þess að aðstaða sé til flokkunnar.
Aðgerðir
Draga úr neyslu:
- Forðast plast eins og hægt er, bæði umbúðir og pakkningar
- Draga úr pappírsnotkun með stafrænni væðingu
- Minnka matarsóun og kaupa einungis mat sem þarf, nýta afganga og vera gagnrýnin á dagsetningar umbúða.
Endurnýta:
- Nota endurnýtanlegar vörur og/eða ílát til áfyllingar
- Nota hlífðarfatnað og annan búnað sem hægt er að þvo (t.d. lök, handklæði, grímur og hanska)
- Nýta merkt svæði (lakahólf) fyrir handklæði/lök og nota nokkrum sinnum
- Nota rafmagns handþurrku, endurunnar pappírsþurrkur eða tauþurrkur í staðinn fyrir einnota pappírs handþurrkur
- Endurnýta pappír sem hefur verið prentað á (bakhliðina) sem minnismiða svo framarlega sem engar trúnaðarupplýsingar séu þar
- Nota margnota glös í staðinn fyrir pappaglös á biðstofunni
Flokka:
- Útvega flokkunartunnur til að flokka plast, pappír og almennan úrgang sem og flokka annan óæskilegan úrgang eins og batterí og ljósaperur.
Rökstuðningur
Með markvissri flokkun úrgangs verður endurvinnslan árangursríkari og sóun minni. Gler og pappír eru auðveldari í endurvinnslu heldur en plast. Á árinu 2021 var einungis 5-6% af plastúrgangi í Bandaríkjunum endurunninn og því er mjög mikilvægt að draga úr notkun einnota plasts og auka endurvinnslu á öðrum efnum til að minnka umhverfisáhrif. Á vef Umhverfisstofnunar má finna opinn fyrirlestur um ábyrga notkun plasts í atvinnulífinu. Á vefsíðu Neytendasamtakanna má einnig finna ýmsar leiðbeiningar í tengslum við neyslu og sjálfbærni.
Heimildir og ítarefni
Statista (2025). Plastic waste worldwide – statistics & facts. https://www.statista.com/topics/5401/global-plastic-waste/#dossierKeyfigures
Umhverfisstofnun (e.d.). Flokkun og endurvinnsla. https://ust.is/hringrasarhagkerfi/graenn-lifstill/flokkun-og-endurvinnsla/
World Economic Forum (2022). Top 25 recycling facts and statistics for 2022. https://www.weforum.org/stories/2022/06/recycling-global-statistics-facts-plastic-paper/
4. Umhverfisvænar samgöngur
Samkvæmt könnun Maskínu frá 2018 þá ferðuðust tæplega 74% einstaklinga á einkabíl til og frá vinnu/skóla og einungis 23,3% á virkan máta þ.e. gangandi, hjólandi eða í strætó. Þegar spurt var hversu langan tíma það tekur að ferðast í vinnu/skóla þá voru tæplega 72% sem sögðust vera 15 mínútur eða minna. Vegalengdir eru því ekki mjög langar.
Fyrir utan jákvæð áhrif á heilsu sem fást af því að nýta virkan ferðamáta þá er hávaða- og loftmengun mun minni af slíkum ferðamáta. Auk losunar einkabílsins á gróðurhúsalofttegundum er svifryksmengun vegna nagladekkja mjög slæm fyrir heilsu, sérstaklega heilsu barna og þeirra sem glíma við sjúkdóma af einhverju tagi.
Aðgerðir
- Samgöngusamningar við starfsfólk sem felur í sér niðurgreiðslur á almenningssamgöngum, styrk til reiðhjólakaupa eða fyrirtækisbílar/-hjól
- Hvetja til þátttöku í verkefnum sem hvetja til virks ferðamáta t.d. Hjólað í vinnuna og Göngum í skólann
- Hvetja notendur þjónustu okkar sem hafa færni til, til að nota virkan ferðamáta í daglegu lífi og til að fara í sjúkraþjálfun
Röskstuðningur
Virkur ferðamáti eins og að hjóla og ganga, ásamt því að nota almenningssamgöngur, getur sparað milljónir tonna af kolefnislosun. Regluleg hreyfing utandyra jákvæð áhrif á þol og bætir heilsuna almennt. Hjólreiðar bæta líkamlega og andlega heilsu og auka lífslíkur. Virkur ferðamáti getur þannig dregið úr ótímabærum andlátum vegna langvinnra sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki II, beinþynningu eða offitu og um leið dregið úr hávaða- og loftmengum af völdum umferðar.
Loftmengun og svifryk eru flokkuð sem krabbameinsvaldandi og einn megin áhættuþáttur hjarta- og lungnasjúkdóma um allan heim. Rykagnir geta komist inn í öndunarfæri og blóðrás og valdið breytingum á virkjun ósjálfráða taugakerfisins, auknum bólguviðbrögðum og minni hreyfivirkni æðaþels. Útsetning til lengri (meira en einn dagur) og skemmri tíma (nokkrir klukkutímar á dag) geta valdið aukinni hættu á einkennum berkjubólgu hjá börnum, langvinnri berkjubólgu hjá fullorðnum, astmaköstum og hjarta- og æðasjúkdómum. Í verstu tilfellum gæti þurft innlögn á sjúkrahús og jafnvel legu á gjörgæsludeild.
Heimildir og ítarefni
State of Global Air (2024). State of Global Air Report 2024.
Umhverfisstofnun (e.d.) Samgöngur. https://ust.is/hringrasarhagkerfi/graenn-lifstill/samgongur/
Umhverfisstofnun (e.d.) Svifryk. https://ust.is/loft/loftgaedi/svifryk/
5. Sjálfbær vinnufatnaður og búnaður
Öll þurfum við að vera í fötum í vinnunni og nýta ýmsan búnað. Kolefnisspor textílframleiðslu er mjög stór og því ætti að setja í forgang að kaupa umhverfis- og vistvænar vörur (e. fair-trade), eiga viðskipti við fyrirtæki sem framleiða vörur á umhverfisvænan hátt og kaupa frekar vörur sem framleiddar eru nær (innanlands eða í Evrópu) frekar en vörur sem fluttar hafa verið lengra að.
Aðgerðir
- Við innkaup skal leita að sjálfbærum vörumerkingum og vottunum t.d. Svansvottun.
- Taka ákvörðun um að klæðast vinnufatnaði sem inniheldur ekki plastefni
- Í staðinn fyrir að kaupa nýjan æfingabúnað og tæki er hægt að athuga hvort íþróttafélög eða aðrir í nærumhverfinu eigi búnað og/eða tæki sem ekki er verið að nota lengur
- Leggja áherslu á að nota eigin líkama sem verkfæri í meðferð, sem og hluti úr daglegu lífi eða nánasta umhverfi
- Leita eftir endingargóðum vörum og vörum sem gerðar eru úr endurunnu plasti eða sjálfbærara efni (eins og t.d. kork eða við)
Rökstuðningur
Talið er að hver Evrópubúi losi sig við um 11 kg af textíl árlega og að hér á landi sér magnið á bilinu 15-23 kg (Saman gegn sóun, e.d.). Talið er að eingöngu um 40% af því sé skilað til endurnotkunar eða endurvinnslu. Þó má telja mögulegt að hringrásarhagkerfið hafi haft áhrif á þessar tölur með aukningu verslana sem selja notuð föt. Aukin meðvitund um bæði umhverfis- og samfélagsleg áhrif hefur orðið á síðustu árum. Framleiðslu textíls fylgir gríðarleg efnanotkun, ferskvatnsmengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þess hefur verið sýnt fram á að þar eigi barnaþrælkun sér stað og starfsaðstæður séu ekki mannsæmandi.
Rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt fram á að víða er að finna skaðleg efni í búnaði sem við notum daglega og teljum eðlilegan í okkar umhverfi. Á vefsíðu Umhverfisstofnunar má finna fróðleik um innkirtlatruflandi efni og efni í hlutum.
Ýmsar vottanir og merkingar hafa verið teknar upp til að einkenna sjálfbæra framleiðslu á textíl:
- EU Ecolabel
- Fairtrade International
- Global Organic Textile Standard (GOTS)
- OEKO-TEX Confidence in textiles
Í sjúkraþjálfun er hægt að beita ýmis konar meðferð og vinna með líkamann án þess að búnaður sé nauðsynlegar. Slíkt gæti auðveldað einstaklingum t.d. að gera heimaæfingar ef ekki þarf að kaupa. Ef kaupa þarf búnað er æskilegt að taka mið af umhverfisáhrifum og sjálfbærni og þá gott að hafa í huga að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem eru ISO-vottuð.
Að auki hafa húsgögn áhrif að andrúmsloft innandyra og getur það haft áhrif á heilsu starfsfólks og notendur þjónustunnar. Einkenni eins og þreyta, höfuðverkur og erting í augum geta verið afleiðingar af lélegum gæðum innilofts. Því er mikilvægt að lofta vel út reglulega, ekki síst í ljósi vaxandi vandamála vegna myglu og raka.
Heimilir og ítarefni
- Saman gegn sóun (e.d.). Textíll https://samangegnsoun.is/textill/
- Umhverfisstofnun (e.d.) Inniloft, raki og mygla https://ust.is/hringrasarhagkerfi/hollustuhaettir/inniloft-raki-og-mygla/
6. Birgjar og samstarfsaðilar
Við þurfum allar hendur á dekk til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Birgjar og samstarfsaðilar valda einnig losun og því er æskilegt að velja þá vel til að lágmarka umhverfisáhrif vinnustaða. Umhverfisvænir vinnustaðir leggja áherslu á að vera í viðskiptum og samstarfi við fyrirtæki og stofnanir sem leggja áherslu á orkusparnað og sjálfbærni. Má þá bæði líta til orkufyrirtækja sem og fjármálafyrirtækja og verslana en ýmis fyrirtæki gefa sig út fyrir að vera umhverfisvæn.
Aðgerðir
- Velja raforkusala sem uppfyllir þau viðmið sem þið hafið sett ykkur. Mundu að skoða framtíðarplön þeirra – hvað hyggst fyrirtækið gera til að vera áfram eitt af þeim umhverfisvænlegustu og sjálfbærustu?
- Velja banka og tryggingafélög sem forgangsraða sjálfbærni. Hvert fara fjárfestingar bankans? Á hann hlutabréf í olíufyrirtækjum?
- Kynna sér fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu og þá aðila sem þar starfa og hafa samband við einstaklinga sem gæti verið áhugavert að vinna með t.d. m.t.t. heilsueflingar, umhverfismála, skipulags- og byggingarmála, vegagerð eða úrgangsmála.
Rökstuðningur
Þegar litið er til sjálfbærni birgja og samstarfsaðila skal kanna hvort fyrirtækin taki mið af þremur stoðum sem hafa verið skilgreindar fyrir sjálfbærni þ.e. út frá vistfræði og félags- efnahagslegum sjónarmiðum, og hvort stjórnun fyrirtækjanna miði að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. Environmental, Social, Governance). Þar er t.d. lögð áhersla á að fjárfesta ekki í verkefnum eða fyrirtækjum sem til dæmis sporna við orkuskiptum, brjóta mannréttindi, eyðileggja umhverfið og framkvæma dýraprófanir eða erfðatækni.
Á vefsíðu Orkustofnunar má finna lista yfir raforkusala á Íslandi og sjálfsagt að kynna sér umhverfisstefnu þeirra og vottanir þegar ákveða þarf hvar skal kaupa rafmagn.
Þegar litið er á vefsíðu banka á Íslandi má sjá að flestir eru að leggja sig fram um að nefna umhverfismál (Arion banki, Íslandsbanki, Kvika, Landsbanki) og þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig hversu viðeigandi það er. Tryggingarfyrirtæki hafa einnig lagt sig fram um að sýna samfélagslega ábyrgð (Sjóvá, TM, VÍS, Vörður) en líkt og með bankana er rétt að rýna í stefnu þeirra þegar velja skal viðskiptin. Rétt er að taka fram þessi dæmi um banka og tryggingarfyrirtæki er alls ekki tæmandi.
Heimildir og ítarefni
Festa miðstöð í sjálfbærni (e.d.) UFS (ESG) leiðbeiningar kauphallar Nasdaq https://www.sjalfbaer.is/ufs–esg–lei%C3%B0beiningar-kauphallar-nasdaq
7. Pappírsnotkun
Mikilvægt er að vera meðvituð um pappírsnotkun og draga úr henni eins og hægt er og er þá m.a. litið til þess að huga þarf að verndun skóga og draga úr kolefnisfótsporum fyrirtækja sem framleiða pappír. Það tekur þig sennilega um 15 sekúndur að lesa þessa efnisgrein og á þeim tíma hafa verið framleidd 199 tonn af pappír. Til að framleiða 10 A4 blöð þarf 100 g af við, 2,6 lítra af vatni og 0.5 kW/h af rafmagni sem skilja eftir sig 100 g af koltvísýringi. Til samanburðar þá þarf 100g af pappír, 1 líter af vatni og 0,2 kW/h af rafmagni til að framleiða 10 endurunnin blöð og skilur það eftir sig 80 g CO2. Þó nokkrar prentþjónustur á Íslandi hafa fengið Svansvottun.
Aðgerðir
Ýmsar leiðir eru til að draga úr pappírsnotkun. Mjög einfalt er að íhuga í hvert sinn hvort það sé raunverulega nauðsynlegt að nota pappír og nota þá t.d. stafræna tækni í staðinn ef það á við en ýmislegt þarf þó að hafa í huga í þeim efnum (sjá næsta lið). Aðrar lausnir gætu falið í sér:
- Digital appointment organisation (letting patients book their own appointments online)
- Stafrænt bókunarkerfi þar sem notendur þjónustunnar bóka tímana sína sjálfir á rafrænan hátt á netinu t.d. á Noona
- Stafrænt skipulag á bókunum og hætta að nota pappír og möppur
- Nota stafrænar skrár
- Prenta einungis út það sem er algerlega nauðsynlegt
- Nota bakhliðina á útprentuðum pappír sem krassblað
- Nota stafrænar leiðir til miðlunar. Yfir 95% af útprentuðum bæklingum og dreifibréfum enda ólesin í ruslinu
- Nota bréfpóst einungis þegar það er nauðsynlegt
- Nota fjölnota diska í staðinn fyrir pappadiska
- Nota endurunninn pappír (einnig á salernum), forðast eldhúsrúllur og nota frekar tuskur
- Nota handblástur í staðinn fyrir pappírsþurrkur
Rökstuðningur
Vinnustaður getur sett sér það markmið að vera pappírslaus þó að það geti tekið nokkurn tíma að komast þangað. Leiðir til þess hafa verið aðgengilegar í langan tíma og sýnt hefur verið fram á að minni pappírsnotkun getur gert starfsemi vinnustaðarins markvissari og árangursríkari þar sem pappírsvinna krefst yfirleitt meiri tíma en aðrar aðferðir. Ef starfrænt kerfi er tengt símanúmeri og/eða netfangi notenda þjónustunnar þá fær hann sjálfkrafa áminningu í farsíma og/eða tölvupósti til að minna á tímann. Margar sjúkraþjálfarastofur bjóða nú þegar upp á þennan möguleika en færri bjóða uppá stafrænt bókunarkerfi þar sem notendur geta bókað sína tíma.
Heimildir og ítarefni
- Sustainability Impact Calculator https://sustaincalculator.com/questions
- The world counts (e.d.) Paper comes from trees https://www.theworldcounts.com/stories/Paper-Waste-Facts
8. Stafræn væðing vinnustaða
Stafræn væðing býður upp sjálfbæra notkun tæknibúnaðar, forrita, skráningar og samskipta. Hún getur m.a. dregið úr pappírsnotkun og gert ferla hagnýtari og/eða skilvirkari. Stafræn væðing hefur þó umtalsvert umhverfisspor þar sem hún krefst annarra auðlinda, t.d. sjaldgæfra jarðmálma, og mengar umhverfið við framleiðslu, rekstur og förgun og.
Aðgerðir
- Vista öll gögn og samskipti í Sögu og/eða Gagna
- Nýta sjálfbærar leitarvélar á internetinu og hugbúnað
Rökstuðningur
Stafræn vistun gagna s.s. á sjúkraskrám, meðferðaráætlunum og dagnótum sem og öðrum skjölum (t.d. læknabréfum og niðurstöðum myndrannsókna) í Sögu og Gagna sparar pláss á vinnustöðum þar sem ekki er lengur þörf á því að fylla skápa af pappír og fljótlegt er að finna það sem þarf. Öll meðhöndlun er auðveldari og hægt er að tengja við innheimtukerfi. Þetta sparar bæði pappír og pappírsvinnu. Gæta þarf þess þó að unnið sé í tölvum og/eða forritum með aðgangsstýringu til að gæta persónuverndar og að gögnin séu geymd og afrituð á öruggum netþjóni.
Alls staðar ætti að vera hægt að skipta yfir í stafræn samskipti en hafa skal varann á! Stafrænar lausnir menga einnig umhverfið og losar t.d. hver tölvupóstur 4-50g af koltvísýringi en það fer eftir hvaða netþjónn er notaður, fjölda viðhengja o.s.frv. (GreenCitizen, 2025). Meginstefið hér er það sama og áður, það að draga úr notkun yfir höfuð er alltaf fyrsti valkosturinn! Allt sem fer í gegnum internetið skilur eftir sig vistfræðileg fótspor. Því meiri gögn og öryggiskröfur þeim mun meiri orka er notuð.
Snjallsímar og tölvur samanstanda af óteljandi íhlutum sem eru upprunnin víðs vegar að í heiminum, allt frá hráefnisvinnslu til lokaframleiðslu. Hér er því erfitt að tala um sjálfbæran iðnað. Það er orkufrekt að framleiða forrit og allar uppfærslur og notkun eru einnig orkufrekar. Það er því þess virði að vera útsjónarsamur þegar kemur að því að uppfæra búnað. Það þarf t.d. ekki að kaupa nýjan IPhone í hvert skipti sem það kemur ný útgáfa, það er hægt að láta laga bilaðan búnað og jafnvel kaupa notaðan. Það nýjasta eru snjallsímar eins og „Fairphone“ og „Shiftphone“ sem eru settir saman á sjálfbæran hátt en þeir eru ekki í boði hér á landi svo við vitum til. Til að gera umhverfinu greiða þá er best að eiga símann og/eða tölvuna sem lengst og skipta þeim ekki út fyrr en það er orðið nauðsynlegt.
Það eru til fleiri leitarvélar á netinu en hin gamla góða Google. Sjálfbærar leitarvélar á internetinu hafa sprottið upp og eru þær taldar ekki síðri en Google og meðhöndla jafnvel persónuupplýsingar þínar á ábyrgari hátt. Dæmi um sjálfbærar leitarvélar:
- Ecosia nýtir græna orku og stendur fyrir gróðursetningu trjáa til að bæta fyrir kolefnissporin
- Ekoru nýtir vatnsorku og styður við hreinsun hafsins
- Gexi https://gexsi.com nýtir græna orka og styður við verkefni sem snúast um heimsmarkmiðin. Síðan er af þýskum uppruna en auðvelt er að velja enska útgáfu
Vefsíður hafa sitt vistfræðilegt fótspor og til að reikna kolefnislosun þinnar vefsíðu getur þú skoðað The original Website Carbon calculator og Digital Declutter for Businesses. Ef þér finnst losunin vera of mikið þá er mjög mun auðveldara að flytja vefsíðu heldur en að flytja í nýja íbúð eða sjúkraþjálfarastofu.
Að minnka vistspor starfrænnar notkunar verndar á sama tíma friðhelgi þína og umhverfið. Framleiðsla á gögnum, geymsla og gangaflutningur krefjast raforku og því minna af gögnum sem þú ert með á internetinu þeim mun betra. Það sem mestu máli skiptir hér er þín eigin stafræna notkun og það er ýmislegt sem hægt er að gera til að verða sjálfbærari á þessu sviði. Sem dæmi má nefna að:
- hver vefkaka (e. cookie) krefst viðbótar orku, leyfðu því einungis nauðsynlegar kökur á heimasíðum,
- beint streymi á leiðarkerfum (t.d. google Maps) krefst mikillar orkunotkunar, notaðu það frekar nettengingar (í off-mode),
- til að spara orku, borgar sig að hala niður efni frekar en að streyma því.
Heimildir og ítarefni
- Advania (2023). Sjálfbærniskýrsla Advania 2023. https://www.advania.is/um-okkur/sjalfbaerni/
- GreenCitizen (2025). How to Reduce Your Digital Carbon Footprint https://greencitizen.com/blog/digital-carbon-footprint/
Endilega segðu okkur frá þinni reynslu af því að gera þinn vinnustað sjálfbærari
Þar sem umhverfissjúkraþjálfun (e. environmental physiotherapy) er enn mjög nýtt svið innan rannsókna, menntunar og starfshátta í sjúkraþjálfun, er margt sem þarf að prófa, þróa og bæta. Við vonumst til að þú viljir kynna þér málin og styðja við áframhaldandi þróun á fræðslu og öðrum gögnum sem nýta má í klínísku starfi. Ef þú hefur eitthvað til málanna að leggja eða vilt leggja umhverfissjúkraþjálfun lið, þá hikaðu ekki við að hafa samband:
- Við þurfum að þýða á sem flest tungumál og aðlaga efni að staðbundnum aðstæðum á Íslandi.
- Við viljum gjarnan fá endurgjöf á veggspjöldin á íslensku sem nýst getur til að bæta þau á einhvern hátt, koma með nýjar hugmyndir og styrkja gagnreynda nálgun á því sem við erum að leggja til.
- Við leitum að sjálfboðaliðum sem hafa áhuga á að búa til fleiri veggspjöld og/eða annað efni sem styður við umhverfissjúkraþjálfun. Ef það ert þú hafðu þá samband.

All poster art by miu creative : Illustration-based design